Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun RSK um endurgreiðslu virðisaukaskatts

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 28. október 2013
Tilv.: FJR13090065/16.2.5

Efni: Kæra á ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 2. ágúst 2013, um lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Ráðuneytið vísar til bréfs yðar, dags. 6. september sl., sem varðar beiðni yðar um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Í bréfinu kemur fram að með ákvörðun ríkisskattstjóra hafi endurgreiðslan verið lækkuð um 12.827 kr. vegna vinnu sem hafi verið unnin á verkstæði. Í framangreindu bréfi yðar er því haldið fram, með vísan til reiknings og fylgiskjala, að endurgreiðslubeiðnin hafi varðað efniskostnað en ekki vélavinnu.
Með bréfi, dags. 13. september 2013 sendi ráðuneytið ríkisskattstjóra beiðni um umsögn í málinu. Umsögn ríkisskattstjóra barst 16. október 2013. Ríkisskattstjóri bendir á í umsögn sinni að kæran og umræddur reikningur beri með sér að um greiðslu á efni hafi verið að ræða. Endurgreiðsluheimild samkvæmt reglugerð 449/2009, heimili ekki endurgreiðslu virðisaukaskatts af efni. Bendir ríkisskattstjóri á að niðurstaða úrskurðar ríkisskattstjóra hafi verið rétt að því er varðar endurgreiðslufjárhæð þótt hún hafi að hluta til verið byggð á röngum rökstuðningi.
Með lögum nr. 10/2009 var lögfest tímabundið bráðabirgðaákvæði við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem endurgreiðslur virðisaukaskatts af vinnu við byggingar og viðgerðir við íbúðarhúsnæði voru hækkaðar úr 60% í 100%. Með reglugerð 449/1990 er nánar tilgreint að endurgreiðsla virðisaukaskatts tekur einungis til vinnu manna sem unnin er á byggingarstað eða við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis. Endurgreiðslubeiðni yðar lýtur að efniskostnaði vegna viðhalds íbúðarhúsnæðis. Ákvæði 42. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, kveður á um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við endurbætur eða viðhald. Með vísan til þess að lagaheimild skortir til að verða við endurgreiðslubeiðni yðar er synjun ríkisskattstjóra staðfest.

Úrskurðarorð:
Ákvörðun ríkisskattstjóra um lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna efniskostnaðar er staðfest.



Fyrir hönd ráðherra





Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum